Fréttir Greiningar

Jákvætt og tímabært skref til losunar fjármagnshafta

17.08.2016 12:05

Höft á fjármagnsflutninga einstaklinga og fyrirtækja verða losuð að verulegu leyti í tveimur skrefum á komandi mánuðum. Frá og með ársbyrjun 2017 verður slíkum aðilum heimilt að fjárfesta allt að 100 m. kr. á ári í erlendum verðbréfum og öðrum fjármálagerningum, eða færa innstæður milli gjaldmiðla innan sömu fjárhæðarmarka. Beinar fjárfestingar erlendis verða nánast ótakmarkaðar og óþægindi á borð við framvísun farmiða til að kaupa ferðagjaldeyri og sérstakar undanþágubeiðnir til fasteignakaupa erlendis heyra væntanlega sögunni til. Aðgerðin er líkleg til að draga úr gjaldeyriskaupum Seðlabankans og hægja á styrkingu krónu, en sterk forðastaða bankans og horfur á áframhaldandi innflæði gjaldeyris draga þó mjög úr líkum á umtalsverðri veikingu krónu í kjölfar hennar.

Myndarlegar heimildir

Fyrirhugað frumvarp ríkisstjórnarinnar um losun hafta á einstaklinga og fyrirtækja felur í sér öllu myndarlegri heimildir en við höfðum búist við. Skrefið er að mati okkar afar jákvætt og löngu tímabært, enda aðstæður til að stíga slíkt skref eins hagfelldar í efnahagslífi og fjármálakerfinu og hægt er að vonast til. Frumvarpið verður lagt fram á Alþingi í dag og ætla má að það taki gildi innan fárra vikna.

Samkvæmt fréttatilkynningu fjármálaráðuneytis eru helstu atriði frumvarpsins þessi:

Lagt er til að við gildistöku frumvarpsins verði:

  • Bein erlend fjárfesting innlendra aðila ótakmörkuð en háð staðfestingu Seðlabanka Íslands. 
  • Fjárfesting í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri, öðrum peningakröfum í erlendum gjaldeyri og fyrirfram- og uppgreiðsla erlendra lána verði frjáls upp að ákveðnu fjárhæðarmarki (30 m. kr.),  að uppfylltum tilteknum skilyrðum. 
  • Einstaklingum veitt heimild til kaupa á einni fasteign erlendis á almanaksári, óháð tilefni og kaupverði. 
  • Dregið úr skilaskyldu innlendra aðila á erlendum gjaldeyri. Hún verði afnumin vegna lántöku einstaklinga hjá erlendum aðilum til kaupa á fasteign eða farartæki eða til fjárfestinga erlendis. 
  • Ýmsar sértækar takmarkanir afnumdar eða rýmkaðar, m.a. heimildir einstaklinga til kaupa á ferðagjaldeyri. 
  • Heimildir Seðlabanka Íslands til upplýsingaöflunar verða auknar svo hann geti betur stuðlað að verðlags- og fjármálastöðugleika.  

Fyrsta janúar 2017 verði:

  • Fjárhæðarmörk hækkuð (í 100 m. kr.) til fjárfestinga í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri, öðrum peningakröfum í erlendum gjaldeyri og fyrirfram- og uppgreiðslu erlendra lána. 
  • Innstæðuflutningur heimilaður innan ofangreindra fjárhæðarmarka. Skilyrði um innlenda vörsluaðila erlendra verðbréfafjárfestinga fellt niður. Þar með munu innlendir og erlendir aðilar geta flutt innstæður og verðbréf til og frá landinu og átt viðskipti með verðbréf erlendis innan þeirra marka sem frumvarpið setur þeim. 
  • Heimildir einstaklinga til kaupa á gjaldeyri í reiðufé rýmkaðar verulega.

Þrátt fyrir að hér sé um verulega losun fjármagnshafta að ræða sitja þó eftir ýmis höft. Má þar nefna m.a. skilaskyldu á gjaldeyri að hluta, bann við hreinum spákaupmennskuviðskiptum með afleiður og slíkt, og höft á aflandskrónur. Einnig er enn óljóst hverjar heimildir stórra stofnanafjárfesta á borð við verðbréfasjóði verða til erlendra fjárfestinga á komandi misserum. Eftir sem áður hefur Seðlabankinn einnig nánar gætur á gjaldeyrisviðskiptum og -flæði, og fær raunar auknar heimildir til þess arna í hinu nýja frumvarpi.

Áhrif á gjaldeyrisflæði

Fyrirhuguð losun hafta mun væntanlega hafa talsverð áhrif á gjaldeyrismarkað á komandi mánuðum. Næstu vikur eru þó áhrifin bundin við þá aðila sem þegar hafa heimildir til gjaldeyrisviðskipta, s.s. lífeyrissjóði og inn- og útflytjendur vöru og þjónustu. Þessir aðilar gætu séð sér hag í því að draga tímabundið úr gjaldeyrissölu eða auka við gjaldeyriskaup vegna breyttra væntinga um skammtímaþróun gengis krónu, en við teljum líklegt að áhrif þessa verði ekki veruleg.

Við gildistöku laganna (líklega nálægt næstu mánaðarmótum) fá einstaklingar og fyrirtæki heimild til að kaupa verðbréf fyrir allt að 30 ma. kr. Um næstu áramót hækka heimildirnar í 100 m. kr. á kennitölu og þá verður einnig heimilt að færa innstæður milli gjaldmiðla innan sömu hámarksfjárhæðar.

Seðlabankinn gerði sviðsmyndagreiningu á mögulegu útflæði vegna nýju heimildanna. Tvær sviðsmyndir voru birtar á kynningarfundi um málið: Annars vegar mynd sem bankinn telur líklega og hins vegar e.k. álagssviðsmynd um verulegt útflæði, sem væri umfram það sem reynsla annarra landa gefur til kynna að verði raunin.

Vægari sviðsmyndin, sem bankinn telur líklegri, hljóðar upp á samtals 110 ma. kr. útflæði

  • 70 ma. kr. eftir gildistöku
  • 40 ma. kr. eftir næstu áramót 

Þyngri sviðsmyndin hljóðar upp á samtals 245 ma. kr. útflæði

  • 165 ma. kr. eftir gildistöku
  • 80 ma. kr. eftir næstu áramót

Fyrra skrefið er talið munu vega þyngra en það síðara vegna þess að verulegur hluti einstaklinga mun ekki nýta heimild umfram 30 m. kr. að mati Seðlabankans.

Við þetta útflæði bætast svo áframhaldandi heimildir lífeyrissjóða til erlendra fjárfestinga. Þær nema 40 mö. kr. frá júlíbyrjun fram til septemberloka, og líklegt er að sjóðirnir fái áfram rúmar heimildir í kjölfarið. Ekki er hins vegar ljóst hvernig verður með erlendar fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða, en þeim er enn óheimilt að fjárfesta í erlendum fjármálagerningum.

Gjaldeyrisforði og innflæði

Már Guðmundsson taldi á blaðamannafundi í gær allar líkur á því að Seðlabankinn og fjármálakerfið þyldi útflæðið án verulegs álags á gjaldeyrisforða, lausafé eða gengi krónu, jafnvel þótt þyngri sviðsmynd Seðlabankans raungerist.

Gjaldeyrisforði Seðlabankans er afar myndarlegur um þessar mundir eftir umsvifamikil gjaldeyriskaup hans undanfarin ár. Hreinn gjaldeyrisforði nam 3,5 ma. evra (478 ma. kr.) og heildarforðinn var 5,3 ma. evra (721 ma. kr.) brúttó í júlílok. Frá júníbyrjun til 12. ágúst hefur Seðlabankinn keypt 741 m. evra (andvirði tæplega 100 ma. kr.) á markaði.  Gjaldeyriskaup Seðlabankans frá júníbyrjun eru því af svipaðri stærð og bankinn telur að líklegt útflæði vegna losunarinnar nú verði.

Á móti útflæði vegna haftalosunar vegur einnig að gjaldeyrisinnflæði vegna utanríkisviðskipta gæti numið u.þ.b. 10 mö. kr. á mánuði að meðaltali næsta hálfa árið eða svo. Við bætist innflæði innan fjármagnsjafnaðar (erlendar lántökur, bein fjárfesting erlendra aðila á Íslandi o.s.frv.), sem hefur verið talsvert og svo gæti einnig orðið enn um sinn.

Forði Seðlabankans er nú talsvert yfir viðmiði AGS fyrir æskilegan gjaldeyrisforða. Miðað við mildari sviðsmynd bankans fer forðinn lægst í u.þ.b. 120% af viðmiðinu, en miðað við þyngri sviðsmyndina fer forðinn lægst í 80-90% af viðmiði AGS að mati bankans. Gjaldeyrisforðinn yrði, jafnvel miðað við þá sviðsmynd, umtalsverður og mun meiri en hann var fyrir fáeinum misserum síðan.

Við teljum líklegt að Seðlabankinn dragi verulega úr gjaldeyriskaupum eftir gildistöku laganna, enda hefur bankinn haft vaxandi áhyggjur af kostnaði þess að stækka hreinan forða jafn hratt og raunin hefur verið. Bankinn er einnig tilbúinn að selja gjaldeyri úr gjaldeyrisforðanum á markaði til að milda skammtímasveiflur í gengi krónu samkvæmt fyrri yfirlýsingum. Góð forðastaða gerir bankanum þetta auðveldara en ella. Umtalsverð veiking krónu í kjölfar framangreindra skrefa til losunar hafta virðist því ólíkleg, þótt þau muni væntanlega leiða til þess að gjaldeyrismarkaður færist nær jafnvægi eftir samfellt tímabil mikils hreins gjaldeyrisinnflæðis frá vordögum 2015.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall