Fréttir Greiningar

Styrking krónu heldur aftur af verðbólgu

27.10.2016 11:10

Vísitala neysluverðs (VNV) er óbreytt í október frá síðasta mánuði, og vegur lækkun í innfluttum liðum upp hækkun húsnæðisliðar og fleiri innlendra liða. Verðbólga er sömuleiðis óbreytt milli mánaða, og mælist sem fyrr 1,8%. VNV án húsnæðis lækkaði hins vegar um tæplega 0,3% í október frá fyrri mánuði, og hefur sú vísitala lækkað um 0,5% undanfarna 12 mánuði. Er þetta fjórði mánuðurinn í röð sem verðhjöðnun mælist sé húsnæði undanskilið frá VNV. Þetta má lesa úr birtingu Hagstofunnar frá því í morgun á VNV fyrir októbermánuð.

Niðurstaðan nú var undir öllum spám, sem lágu á bilinu 0,1% - 0,2% hækkun VNV. Við höfðum spáð 0,1% hækkun að þessu sinni, og liggur munurinn á spá okkar og niðurstöðunni að mestu í meiri lækkun matar og drykkjarvara, minni hækkun flugfargjalda og meiri almennri lækkun ýmissa innfluttra liða en við höfðum áætlað. Á móti hækkaði húsnæðisliðurinn talsvert umfram það sem við höfðum reiknað með.

Gengisáhrif allsterk í matvöru og fleiri liðum

Líkt og síðustu mánuði kom styrking krónu undanfarið allsterkt fram í mælingu VNV að þessu sinni. Til að mynda lækkuðu nánast allir undirliðir mat- og drykkjarvöruliðar vísitölunnar. Mesta lækkunin var á ávöxtum og grænmeti, sem samanlagt vó til 0,08% lækkunar á VNV. Í heild lækkaði matur og drykkur í verði um 1,0% í október (-0,15% í VNV). Þá lækkaði bifreiðaverð um 0,6% (-0,04% í VNV), verð á fötum og skóm um 0,3% (-0,01%), lyf um 1,4%, og tölvur, sjónvörp og hljómflutningstæki um 1,0% (-0,01% í VNV) svo nokkuð sé nefnt. 

Auk þess lækkaði verð á gistingu um 8,4% (-0,04% í VNV) vegna árstíðarsveiflu, en háannatími ferðaþjónustunnar er nú að baki. Þá hélt verð á póst- og símaþjónustu áfram að lækka (-0,09% í VNV), en þessi liður hefur lækkað um nærri 18% undanfarna 12 mánuði.

Alltaf hækkar húsnæðið

Líkt og fyrri daginn vó hækkun reiknaðrar húsaleigu einna þyngst til hækkunar VNV að þessu sinni (0,21% í VNV), en þessi liður endurspeglar að mestu verðþróun á íbúðarhúsnæði. Markaðsverð á íbúðarhúsnæði hefur hækkað hratt undanfarið samkvæmt mælikvarða Hagstofunnar, og nemur hækkun þess undanfarna 12 mánuði 12,7%. Tólf mánaða hækkunartaktur íbúðaverðs hefur ekki verið hraðari á þennan kvarða frá ársbyrjun 2008.

Eldsneytisverð hækkaði um 1,1% á milli mánaða (0,04% í VNV) og kemur sú hækkun í kjölfar hækkunar á heimsmarkaðsverði. Þá hækkuðu flugfargjöld um 2,8% (0,03% í VNV), en sú hækkun var talsvert minni en við væntum í kjölfar ríflega 20% lækkunar mánuðina tvo á undan.

Horfur fyrir næstu mánuði:

Útlit er fyrir að VNV hækki fremur lítið til áramóta, og má að mestu þakka það styrkingu krónu sem við eigum von á að haldi áfram næsta kastið, þótt nokkuð dragi úr styrkingarhraðanum að mati okkar. Við spáum til bráðabirgða 0,2% lækkun VNV í nóvember og 0,3% hækkun í desember. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 1,9% í árslok. 

Húsnæðisliðurinn leggur að jafnaði mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,13% í mánuði hverjum. Í nóvember gerum við ráð fyrir verðlækkun á flugfargjöldum og áframhaldandi lækkun á ýmsum innfluttum liðum. Flugfargjöld hafa hins vegar talsverð hækkunaráhrif í desember og er þar um árstíðabundna hækkun að ræða. Loks koma útsöluáhrif inn af krafti í janúarmánuði á næsta ári, en auk þess hefur fyrirhugað afnám tolla á ýmsar innfluttar vöru lækkunaráhrif sem og væntanleg lækkun veitugjalda fyrir rafmagnsflutninga og kalt vatn hjá OR.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall