Fréttir Greiningar

Spáum óbreyttum stýrivöxtum 17. maí nk.

10.05.2017 10:40

Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands (SBÍ) muni halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunardegi sínum 17. maí nk. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 5%. Verður rökstuðningur nefndarinnar fyrir óbreyttum vöxtum væntanlega sá að þrátt fyrir að verðbólga og verðbólguvæntingar haldist við verðbólgumarkmiðið þá kalli mikil innlend kostnaðarverðshækkun, sérstaklega húsnæðisverðs og launa, ör vöxtur efnahagsumsvifa og vaxandi framleiðsluspenna á óbreytta vexti. 

Framsýna leiðsögnin í síðustu yfirlýsingu nefndarinnar sem birt var samliða síðustu vaxtaákvörðun var hlutlaus líkt og áður. Sagði í yfirlýsingunni að nefndarmenn voru sammála um að aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum myndi ráðast af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn. Reiknum við með því að nefndin muni halda framsýnni leiðsögn áfram hlutlausri í yfirlýsingu sinni nú.

Í þessu sambandi má rifja upp að enginn meðlimur peningastefnunefndar taldi ástæðu til að breyta vöxtum á síðasta vaxtakvörðunarfundi þann 15. mars  síðastliðinn. Tillaga Más Guðmundssonar um óbreytta stýrivexti var því samþykkt samhljóða.

Gengi krónunnar nær óbreytt frá síðustu vaxtaákvörðun  

Gengi krónunnar hefur hækkað nær 1% gagnvart viðskiptaveginni gengisvísitölu frá síðustu vaxtaákvörðun í mars.  Hefur gengi krónunnar sveiflast nokkuð á tímabilinu. Sér í lagi jókst flökt í gengi krónu eftir tilkynningu um haftalosun í mars. Í apríl hefur hins vegar dregið úr flöktinu að nýju, og virðist sem gjaldeyrismarkaðurinn sé að læra á hið breytta umhverfi sem haftalosunin felur í sér.

Samhliða vaxtaákvörðuninni mun Seðlabankinn birta nýja verðbólgu- og þjóðhagsspá, en bankinn birti síðast uppfærða spá samhliða vaxtaákvörðuninni 8. febrúar sl. Gengi krónunnar hefur hækkað um tæplega 5,3% frá því að Seðlabankinn gerði þá spá. Gengisvísitala krónunnar er nú 156 en Seðlabankinn spáði því að hún yrði að meðaltali 162,6 á árinu að meðaltali. Er krónan nú 4,2% sterkari en bankinn reiknaði með að hún yrði á árinu að jafnaði. Gengi krónunnar það sem af er ári hefur að meðaltali verði 161,2. Má búast við því að í nýrri verðbólguspá muni bankinn ganga út frá nokkuð sterkari krónu á árinu en hann gerði í febrúarspá sinni. Bætir þetta nokkuð verðbólguhorfur að öðru óbreyttu. 

Vísbendingar um hraðan hagvöxt það sem af er ári  

Samhliða vaxtaákvörðuninni nú mun Seðlabankinn birta nýja hagvaxtarspá. Frá síðustu spá bankans sem birt var í febrúar sl. hafa verið birtar tölur fyrir hagvöxt í fyrra, en hagvöxtur mældist 7,2% á þeim tíma. Er þetta talsvert kröftugur hagvöxtur og sá hraðasti sem mælst hefur í þessari uppsveiflu.  Hagvöxturinn er nokkuð yfir því sem Seðlabankinn spáði fyrir síðasta ár í heild í febrúar, en hann reiknaði þá með 6,0% vexti. Tölurnar benda til þess að framleiðsluspennan í hagkerfinu sé að myndast nokkuð hraðar en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í þeirri spá.

Rétt er að hafa í huga að hagvaxtartölur sl. árs lágu fyrir við síðustu vaxtaákvörðun í mars og tók nefndin þá tillit til þeirra í ákvörðun sinni um óbreytta stýrivexti. Í fundargerð vegna síðasta fundar nefndarinnar kemur fram að nefndarmenn voru sammála um að þótt hagvöxturinn hefði að nokkru leyti verið útflutningsdrifinn hefði hann verið langt umfram langtímahagvaxtargetu og væri farinn að reyna töluvert á framboð innlendra framleiðsluþátta. Nefndarmenn töldu því líklegt að spennan í þjóðarbúinu væri orðin meiri en spáð hafði verið í febrúar, og færi vaxandi þrátt fyrir að innflutningur erlends vinnuafls vegi nokkuð á móti.

Vísbendingar eru um áframhaldandi kröftugan hagvöxt það sem af er þessu ári. Má þar nefna að heildarvinnustundum fjölgaði um 3,5% á milli ára á fyrsta ársfjórðungi, sem er í takti við þróunina í fyrra. Jafnframt var hið sama upp á teningnum nú og þá, þ.e. fjölgunina mátti alfarið rekja til fjölgunar á starfandi (+3,9%) þar sem vinnustundum fækkaði (-0,3%). Benda tölurnar til þess að hagvöxtur á fyrsta fjórðungi þessa árs hafi verið umtalsverður. Í febrúarspá sinni reiknaði Seðlabankinn með 5,3% hagvexti á árinu. 

Verðbólga og verðbólguvæntingar enn við markmiðið

Verðbólgan mældist 1,9% í apríl og hækkaði frá fyrri mánuði þegar hún mældist 1,6%. Verðbólgan er nú hin sama og hún mældist við síðustu vaxtaákvörðun í mars, og raunar sú hin sama og hún var frá desember í fyrra fram í febrúar á þessu ári. Taumhald peningastefnunnar, mælt með mun liðinnar verðbólgu og virkra stýrivaxta Seðlabankans, hefur haldist óbreytt frá síðustu vaxtaákvörðun. Miklar innlendar kostnaðarverðshækkanir samhliða vaxandi framleiðsluspennu og í kjölfar mikilla launahækkana og aukins hraða í hækkun húsnæðisverðs eru að skapa verðbólguna, en á móti vegur styrking krónunnar undanfarna mánuði og lítil innflutt verðbólga.

 

Verðbólgan á fyrsta ársfjórðungi mældist 1,8% sem er aðeins minna en spá Seðlabankans hljóðar upp á, en hann reiknaði með 1,9% verðbólgu á fjórðunginum. Á öðrum fjórðungi spáði bankinn 2,0%. Til samanburðar spáum við 1,9% verðbólgu á því tímabili.

Samhliða vaxtaákvörðuninni nú mun Seðlabankinn birta nýja verðbólguspá. Er núverandi verðbólguspá okkar fyrir næstu fjórðunga nokkuð undir síðustu spá bankans. Ein megin ástæða þess felst í ólíkri gengisforsendu, en okkar spá byggir á nokkuð sterkari krónu en Seðlabankinn gerir í sinni spá. Horfur varðandi verðbólgu litið til næsta árs eru hins vegar nokkuð verri skv. okkar spá, en þá reiknum við með því að gengi krónunnar gefi aðeins eftir á meðan Seðlabankinn reiknaði með áframhaldandi hækkun hennar. Reiknum við með því að ný spá Seðlabankans muni hljóða upp á aðeins minni verðbólgu til skemmri tíma en var í síðustu spá hans. Á móti kemur að hugsanlega mun hann spá meiri verðbólgu en áður þegar litið er fram á næsta ár m.a. vegna gengisþróunar en einnig vegna meiri framleiðsluspennu en í fyrri spá.  

 

Rétt er að hafa í huga að verðbólguvæntingar meðlima peningastefnunefndar kunnu að hafa verið aðrar en fólust í verðbólguspá bankans við síðustu vaxtaákvörðun m.a. vegna hagvaxtar og gengisþróunar. Í þessu sambandi er einnig rétt að hafa í huga að verðbólguvæntingar hafa verið að hækka undanfarið.  Hafa t.d. verðbólguvæntingar, mælt út frá mun á verðtryggðum og óverðtryggðum vöxtum á skuldabréfamarkaði, hækkað frá síðustu vaxtaákvörðun. Einnig hafa verðbólguvæntingar stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins hækkað að verðbólgumarkmiðinu samkvæmt könnun Gallup sem gerð var seinni hluta febrúar sl. Stjórnendur vænta að jafnaði 2,5% verðbólgu næstu 12 mánuði sem er 0,5% hækkun frá könnuninni sl. haust. Stjórnendur vænta þess að verðbólgan verði 3,0% eftir tvö ár sem er sama niðurstaða og í síðustu könnunum.

Spáum 0,25 prósentustiga vaxtalækkun á þriðja ársfjórðungi þessa árs 

Við reiknum með því að peningastefnunefnd Seðlabankans lækki vexti bankans um 0,25 prósentustig á þriðja ársfjórðungi, en bankinn mun í ágúst nk. birta uppfærða verðbólgu og hagvaxtarspá. Reiknum við með því að gengi krónunnar verði þá búið að styrkjast nokkuð frá núverandi gildum sem mun, ásamt verðbólgu undir verðbólgumarkmiði, styðja ákvörðun nefndarinnar um lækkun. Eftir það reiknum við með því að nefndin muni halda stýrivöxtum bankans óbreyttum út spátímabilið sem nær til loka árs 2018.

Gengisþróun krónu er sem fyrr einn helsti óvissuþáttur spár okkar um stýrivexti til lengri tíma, og gerum við eftir sem áður ráð fyrir styrkingu fram á lokafjórðung yfirstandandi árs. Líkt og áður gerum við í kjölfarið ráð fyrir hægfara gengislækkun krónu á seinni hluta spátímans, þegar dregur úr viðskiptaafgangi og hátt raungengi fer að segja til sín af auknum þunga.

Talsvert aðhald er nú í peningamálum, hvort sem er mælt út frá mun á núverandi verðbólgu og stýrivöxtum eða verðbólguvæntingum og stýrivöxtum. Vegna hóflegrar verðbólgu á næstunni í okkar spá, sem og spá Seðlabankans, haldast raunstýrivextir áfram háir m.v. óbreytta stýrivexti. Þannig má reikna með að áfram verði umtalsvert aðhald í peningastjórnuninni á næstunni. Aðhaldsstigið mun hins vegar minnka á árinu 2018 að okkar mati vegna aukinnar verðbólgu, en þá reiknum við á móti með því að það dragi úr hagvexti og spennunni í hagkerfinu. 

Stýrivaxtaspána má nálgast hér.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall