Fréttir Greiningar

Spáum 0,5 prósentustiga hækkun stýrivaxta 10. júní nk.

04.06.2015 09:04

Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni ákveða að hækka stýrivexti bankans um 0,5 prósentur á næsta vaxtaákvörðunarfundi sínum 10. júní nk. Mun nefndin að okkar mati rökstyðja hækkunina með miklum innlendum launahækkunum, verri verðbólguhorfum, auknum verðbólguvæntingum, vaxandi spennu í efnahagslífinu og minnkandi peningalegu aðhaldi. 

Spá okkar er í samræmi við þá framsýnu leiðsögn sem finna má í yfirlýsingu og fundargerð peningastefnunefndar vegna síðustu vaxtaákvörðunar nefndarinnar sem var 13. maí. Leiðsögnin sem þar er að finna er nokkuð eindregið á þá leið að þróun kjaraviðræðna að undanförnu ásamt hækkun verðbólguvæntinga og vísbendingum um öflugan vöxt eftirspurnar bendi til þess að hækka þurfi vexti þegar á næsta fundi nefndarinnar. Sagði seðlabankastjóri á kynningarfundi vegna ákvörðunarinnar að hækkunin gæti orðið meiri en minni.

Kjarasamningar umfram það sem samrýmist verðbólgumarkmiði bankans

Í fundargerðinni vegna síðasta fundar kom fram að einn nefndarmaður kaus gegn tillögu seðlabankastjóra um óbreytta vexti og vildi hækka vexti um 0,5 prósentur. Taldi hann að aðstæður í þjóðarbúskapnum kölluðu nú þegar á hert aðhald peningastefnunnar, óháð kjarasamningunum, og einnig væri orðið ljóst að kjarasamningarnir myndu ekki samrýmast verðbólgumarkmiðinu. Vildi hann síðan hækka vexti enn frekar á næstu fundum nefndarinnar. Þeir fjórir nefndarmenn sem studdu tillögu Seðlabankastjóra um óbreytta vexti töldu ekki skipta meginmáli hvort vextir yrðu hækkaðir í maí eða júní, þegar horfur varðandi niðurstöður kjarasamninga hefðu skýrst. Horfðu þessir nefndarmenn m.a. til þess að búa markaðsaðila undir hækkun vaxta með skýrum skilaboðum. 

Í þessu sambandi skoðaði nefndin á síðasta fundi sínum ýmis fráviksdæmi frá grunnspá Seðlabankans þar sem gert var ráð fyrir hraðari hækkun launa. Kemur m.a. fram að nefndin taldi „.. ljóst að jafnvel í því fráviksdæmi þar sem launahækkanir voru í takt við það sem Samtök atvinnulífsins hefðu (þá) boðið stéttarfélögum þyrftu að öðru óbreyttu að koma til töluverðar vaxtahækkanir til að tryggja verðstöðugleika til langs tíma.“ Kjarasamningarnir sem nú hafa verið gerðir við stóran hluta almenna vinnumarkaðarins fela í sér ívið meiri hækkun launa en tilboðið sem SA voru búin að leggja fram við vaxtaákvörðunina síðast og nefndin lét meta. Því er ljóst að mat nefndarinnar á þeim launahækkunum sem felast í nýundirrituðum kjarasamningum verður ekki mildara. 

Launahækkanir þær sem felast í nýundirrituðum kjarasamningum eru í takti við það sem við reiknuðum með í nýbirtri þjóðhags- og verðbólguspá okkar. Samanlagðar launahækkanir á þessu ári eru þar taldar verða 8,5% yfir þetta ár, 7,5% yfir næsta á og 6,5% yfir árið 2017. Samningarnir benda þó til að hækkunin í ár gæti orðið aðeins meiri en við spáðum en aftur á móti að hækkanirnar á næsta ári verði heldur minni. Spá okkar hljóðar svo upp á að verðbólgan, sem nú mælist 1,6%, fari yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans á síðasta fjórðungi þessa árs og að hún verði að meðaltali 3,6% á næsta ári og 3,7% árið 2017, þ.e.a.s. nokkuð yfir verðbólgumarkmiði bankans.  

Spáum við nokkuð meiri verðbólgu næsta kastið en Seðlabankinn gerir í sinni nýjustu verðbólguspá sem birt var samhliða vaxtaákvörðuninni 13. maí sl., en spá hans þá hljóðaði upp á 3,0% verðbólgu á næsta ári og 3,2% árið 2017. Ástæða munarins felst eflaust að stærstum hluta í því að við reiknum með meiri launahækkunum á spátímabilinu. 

Spáum 2,5 prósentustiga hækkun stýrivaxta til ársloka 2017

Við reiknum með því að peningastefnunefndin bregðist við aukinni verðbólgu, miklum innlendum launahækkunum, vaxandi spennu í efnahagslífinu og minnkandi peningalegu aðhaldi með enn frekari hækkun stýrivaxta á seinni hluta þessa árs og á næstu 2 árum. Samtals spáum við því að nefndin muni hækka stýrivexti bankans um 1,0 prósentustig á þessu ári, 1,0 prósetnustig á næsta ári og 0,5 prósentustig á árinu 2017. Aðhaldsstig peningamála mælt út frá muninum á virkum stýrivöxtum bankans og verðbólgu mun ekki aukast mikið á tímabilinu þar sem svo mikið mun bæta í verðbólguna á sama tímabili. 

Líkt og áður er mikil óvissa um þróun krónunnar næstu misseri í ljósi óvissu um uppgjör búa föllnu fjármálafyrirtækjanna og fyrirhugaðra tilslakana gjaldeyrishafta. Má segja að þetta sé einn af stærstu óvissuþáttum stýrivaxtaspár okkar og í leiðinni spár okkar um verðbólguþróun. Til skemmri tíma er óvissa um væntanleg frumvörp ríkisstjórnarinnar sem fyrirhugað er að verði lögð fram á Alþingi fyrir vaxtaákvörðunina 10. júní. Spá okkar um stýrivexti byggir á því að þær tilslakanir sem gerðar verða á gjaldeyrishöftum á spátímabilinu verði framkvæmdar þannig að þær munu ekki raska stöðugleikanum á gjaldeyrismarkaðinum og ekki kalla á hækkun stýrivaxta til að tryggja þann stöðugleika. 

Stýrivaxtaspá okkar má nálgast hér

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall