Fréttir Greiningar

Íbúðaverð ýtir verðbólgu yfir markmið Seðlabankans

26.03.2018 11:50

Hröð hækkun íbúðaverðs síðustu mánuði er helsta ástæða þess að verðbólga er nú aftur komin yfir markmið Seðlabankans eftir 4 ára tímabil verðbólgu undir markmiði. Ekki er víst að verðbólga fari aftur undir markmið bankans á næstunni.

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,56% í mars skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú yfir markmiði Seðlabankans í fyrsta sinn síðan í janúar 2014. Verðbólgan er 2,8% en var 2,3% í febrúar. VNV án húsnæðis hækkaði um 0,36% í mars og m.v. þá vísitölu mælist 0,3% verðhjöðnun undanfarna 12 mánuði. Það dregur því lítillega saman með verðbólgumælikvörðunum með eða án húsnæðis.

Mæling marsmánaðar er yfir flestum birtum spám. Við spáðum 0,4% hækkun VNV milli mánaða, en spár voru á bilinu 0,4-0,6% hækkun milli mánaða. Munurinn á spá okkar og niðurstöðu Hagstofu liggur að langstærstum hluta í verulegri hækkun reiknaðrar húsaleigu, sem endurspeglar íbúðaverð að mestu. 

Húsnæðisliður meginrót verðbólgu

Síðastliðna mánuði hafa mælingar Hagstofunnar á íbúðaverði verið nokkuð óútreiknanlegar, og farið á allt annan veg en kannanir okkar og spár almennt bentu til. Eins og undanfarin misseri er húsnæðisliður VNV meginrót þeirrar verðbólgu sem nú mælist, eins og endurspeglast glögglega í muninum á VNV með og án húsnæðis. 

Í marsmælingunni hækkaði liðurinn í heild um 0,84% (0,29% hækkunaráhrif í VNV). Greidd húsaleiga hækkaði um 0,24% (0,01% í VNV) en mestu munar um 1,4%  hækkun reiknaðrar húsaleigu (0,29% í VNV) sem byggir að mestu á þróun íbúðaverðs.Undirvísitölur Hagstofunnar fyrir markaðsverð íbúðarhúsnæðis sýnir þróunina eftir tegund og staðsetningu húsnæðis. Allar undirvísitölur í marsmælingunni hækka. Verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 1,1% og á sérbýli um 0,7%. Verð á landsbyggðinni hækkar þó langmest eða um 3,2% milli mánaða og hefur hækkað um 10,2% frá áramótum.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar hefur íbúðaverð hækkað um 13,2% undanfarna 12 mánuði og hefur því aðeins dregið úr hækkunartaktinum sem fór hæst síðasta sumar þegar hann var um 24%. Hröð hækkun íbúðaverðs á landsbyggðinni undanfarið er athyglisverð, og teljum við ekki úr vegi að setja hana í samband við fréttir um vaxandi eftirspurn eftir eignum í þéttbýliskjörnum við jaðar höfuðborgarsvæðisins á borð við Reykjanesbæ og Árborg.

Útsöluáhrifin í takti við væntingar

Útsöluáhrifin eru nokkurn veginn í þeim takti sem við áttum von á í mars. Sér í lagi má nefna að liðurinn föt og skór hækkaði um 4,4% í mars (0,15%).  Einnig hækkaði verð á húsgögnum og heimilisbúnaði um 1,6% (0,02% VNV). Þá hækkaði matur og drykkjarvörur í verði um 0,18% (0,02%). Liðurinn ferðir og flutningar hækkaði einnig  í mars, um 0,16% (0,02% í VNV), þar sem flutningar í lofti hækkuðu mest eða um 2,4% (0,03% í VNV). 

Heyrir verðbólga undir markmiði sögunni til í bili?

Sem fyrr segir var verðbólga undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans allt frá febrúar 2014 fram til febrúar í ár. Svo langt tímabil verðbólgu undir markmiði er einsdæmi frá því markmiðið var tekið upp snemma árs 2001. Hins vegar gæti orðið einhver bið á því að verðbólga færi aftur undir markmið Seðlabankans á næstunni, sér í lagi ef hækkun íbúðaverðs heldur áfram að mælast umtalsverð. Seðlabankinn hefur undanfarið viðrað þá skoðun að hægari hækkun íbúðaverðs myndi vega á móti þverrandi áhrifum af lækkun innflutningsverðlags. Nýleg þróun húsnæðisliðar VNV gæti því  reynst nefndinni nokkur þyrnir í auga og dregið úr líkum á því að stýrivextir lækki í bráð.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall