Fréttir Greiningar

Lítil raunávöxtun hjá lífeyrissjóðum í fyrra

23.02.2017 11:06

Útlit er fyrir að raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða hafi að jafnaði verið lítil á síðasta ári vegna styrkingar krónu og rysjóttar tíðar á hlutabréfamarkaði. Hlutfall erlendra eigna af heildareignum lækkaði lítillega þrátt fyrir veruleg kaup sjóðanna á erlendum fjáreignum á árinu. Góð ávöxtun árin á undan mildar þó áhrif þróunarinnar í fyrra á stöðu sjóðanna, og er raunávöxtun kerfisins undanfarin 5 ár væntanlega að jafnaði enn yfir 3,5% tryggingarfræðilegu viðmiði sjóðanna þrátt fyrir slaka ávöxtun í fyrra.

Heildareignir íslenskra lífeyrissjóða námu 3.514 mö. kr. um síðustu áramót samkvæmt tölum frá Seðlabankanum, en það samsvarar u.þ.b. 145% af VLF síðasta árs. Þar af voru innlendar eignir 2.751 ma. kr. en erlendar eignir 764 ma. kr. í bókum sjóðanna. Höfðu fyrrnefndu eignirnar aukist um 201 ma. kr. á árinu en þær síðarnefndu um 29 ma. kr. Í prósentum talið jukust eignir lífeyriskerfisins um 7,0%, þar af innlendar eignir um 7,9% en erlendar eignir um 3,9%.

Ekki liggja fyrir tölur um iðgjaldagreiðslur til sjóðanna eða lífeyrisgreiðslur þeirra til sjóðfélaga árið 2016. Miðað við sögulega þróun, sem og þróun fólksfjölda og launavísitölu, má lauslega áætla að iðgjöld umfram lífeyrisgreiðslur hafi numið á bilinu 50 – 55 ma. kr. á síðasta ári. Einnig ber að hafa í huga þegar þróun eigna lífeyrissjóðanna á síðasta ári er skoðuð að LSR fékk í desember síðastliðnum framlag upp á 117 ma. kr. frá ríkissjóði. Sé tekið tillit til þessa má áætla að nafnávöxtun lífeyrissjóðanna í heild hafi verið í námunda við 2%. Að teknu tilliti til verðbólgu lítur því út fyrir að raunávöxtun kerfisins í heild hafi verið sáralítil á síðasta ári.

Styrking krónu lækkar virði erlendra eigna

Erlendar eignir lífeyrissjóðanna hafa væntanlega dregið ávöxtunina talsvert niður á síðasta ári. Þótt ávöxtun á erlendum hlutabréfamörkuðum hafi verið nokkur í fyrra vó styrking krónu þó að jafnaði mun þyngra í verðþróun erlendu eignanna í krónum talið. Má þar nefna að MSCI heimsvísitalan fyrir hlutabréf hækkaði um 5,3% á árinu 2016, en á sama tíma lækkaði vegið meðalgengi erlendra gjaldmiðla, eins og það endurspeglast í gengisvísitölu Seðlabankans, um 15,6% gagnvart krónu. Þetta kemur heim og saman við aukningu erlendra eigna sjóðanna í krónum talið yfir síðasta ár þrátt fyrir að heimildir þeirra til erlendra verðbréfakaupa hafi numið samtals 85 mö. kr. á árinu. Að sjálfsögðu verður þó að hafa hér í huga að lækkunin á virði erlendu eignanna er fyrst og fremst bókhaldsæfing vegna gengisáhrifanna, enda skapa þær mikilvæga áhættudreifingu fyrir komandi ár og ómögulegt er að ráða í hvernig gengi krónu mun þróast þar til söluandvirði þeirra verður skipt í krónur í fyllingu tímans.

Innlend hlutabréf hafa líklega gefið lífeyrissjóðunum heldur takmarkaða ávöxtun á árinu 2016, enda var ávöxtun á hlutabréfamarkaði, miðað við K-90 vísitölu Greiningar Íslandsbanka, neikvæð um u.þ.b. 1% á árinu. Skuldabréfaeign sjóðanna, sem myndar u.þ.b. 55% af heildareignum þeirra, hefur þó væntanlega gefið nokkru betur af sér. Stór hluti þeirrar eignar er raunar bókaður á kaupkröfu í bókum sjóðanna, og skilar því fastri ávöxtun ár eftir ár.

Magurt ár...eftir fimm góð ár

Þótt raunávöxtun eigna lífeyrissjóða hafi líklega verið talsvert undir 3,5% tryggingafræðilegu viðmiði í fyrra þarf þó ekki að örvænta í bili um stöðu sjóðanna, enda nokkur góð ár að baki þar á undan. Samkvæmt tölum frá FME var raunávöxtun áranna 2011-2015 að jafnaði 6,2% hjá samtryggingardeildun en 5,4% hjá séreignardeildum lífeyrissjóða.

Tryggingafræðileg staða sjóða án bakábyrgðar ríkis og sveitarfélaga var jákvæð í árslok 2015 um 3,2% samkvæmt tölum FME, og er staða almenna lífeyriskerfisins því nokkuð traust. Allt öðru máli gegnir hins vegar um tryggingafræðilega stöðu lífeyrissjóða með bakábyrgð, en hún var neikvæð um 38% í árslok 2015 og varla hefur þróunin í fyrra orðið til að bæta hana að ráði, a.m.k. ef tillegg opinberra aðila er undanskilið.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall