Fréttir Greiningar

Krónan óvenju sterk í ársbyrjun

07.01.2014 11:33

nullEftir myndarlega styrkingu í desembermánuði er gengi krónu í ársbyrjun nú umtalsvert hærra en raunin var á sama tíma í fyrra. Verðbólguþrýstingur er að sama skapi minni um þessar mundir. Þróunin kemur Seðlabankanum vel, enda eykur hún trú á getu bankans til að halda gengissveiflum í skefjum, auk þess sem hann hefur náð að afla sér töluverðs gjaldeyris síðustu mánuði. Auk þess hefur þróunin dregið úr verðbólguvæntingum.

Þegar þetta er ritað (kl.11) kostar evran 158,5 kr. og Bandaríkjadollar 116 kr. á millibankamarkaði. Í ársbyrjun 2013 kostaði evran hins vegar tæplega 169 kr. og dollarinn nærri 128 kr. Krónan er því u.þ.b. 7% sterkari gagnvart evru og 10% sterkari gagnvart dollar en raunin var fyrir ári síðan. Gagnvart viðskiptaveginni körfu helstu gjaldmiðla er krónan nú u.þ.b. 10% sterkari en raunin var fyrir ári síðan.

Gengisstyrking í skammdeginu

Óhætt er að segja að gengisþróun krónu hefur verið ólík í vetur því sem var árin á undan. Frá nóvemberbyrjun 2013 hefur krónan styrkst um ríflega 4% gagnvart körfu helstu gjaldmiðla og hefur hún ekki verið sterkari á þennan mælikvarða síðan í maí síðastliðnum. Frá nóvemberbyrjun 2012 fram til áramóta veiktist krónan hins vegar um nærri 3%, og árið þar á undan nam veikingin á sama tímabili nærri 2%. Raunar höfum við til skamms tíma talið að krónan myndi sigla lygnari sjó í vetur en oft áður, en styrkingin undanfarið hefur þó komið okkur á óvart.

Ýmsar ástæður má nefna fyrir þessari ólíku þróun. Eins og við höfum áður fjallað um eru afborganir erlendra lána fyrirtækja og opinberra aðila talsvert smærri í sniðum þennan veturinn en raunin var ári fyrr. Þá hefur gjaldeyrisstaða Landsbankans breyst mikið, og endurspeglast sterk lausafjárstaða bankans í gjaldeyri m.a. í  50 ma.kr. fyrirframgreiðslu hans inn á skuldabréf gagnvart þrotabúi gamla Landsbankans. Síðast en ekki síst hefur gjaldeyrisinnflæði vegna ferðamanna og vöruviðskipta aukist milli ára, og sér í lagi hefur ferðamannastraumur utan háannatíma vaxið umtalsvert. Ekki lítur út fyrir að veruleg breyting verði á þessum aðstæðum næsta kastið, og því eru ágætar líkur á að gengi krónu muni áfram verða nokkru hærra en var í fyrra, þótt ómögulegt sé að segja til um skammtímasveiflur í genginu.

Seðlabankinn sáttur við gengisþróun

nullÞróun krónunnar undanfarið er Seðlabankanum eflaust kærkomin, enda má líta á veturinn sem ákveðinn prófstein á hina nýju stefnu varðandi gjaldeyrisviðskipti á markaði sem kynnt var síðastliðið vor. Sú stefna felst í því að bankinn hagar kaupum og sölu á markaði í samræmi við markmið um að lágmarka gengissveiflur. Voru væntingar peningastefnunefndar þær að stefnan myndi stuðla að því að innlent verðlag aðlagaðist sterkari krónu fyrr en ella og að verðbólguvæntingar myndu lækka. Bankinn hefur nýtt sér innflæði á gjaldeyrismarkaði til að kaupa samtals 39 m. evra á millibankamarkaði frá seinni hluta nóvembermánaðar. Með þessum kaupum hefur hann raunar aflað til baka þess gjaldeyris sem hann seldi úr gjaldeyrisforðanum á fyrstu mánuðum síðasta árs, og 8 m. evra betur.

nullFrá því Seðlabankinn kynnti nýja gjaldeyrisstefnu sína í maí síðastliðnum hefur dregið talsvert úr gengissveiflum, hvort sem litið er á daglegar gengisbreytingar eða hreyfingar milli mánaða. Þótt við teljum að fleira komi þar til en hin breytta stefna virðist ljóst að stefnan sem slík hefur hjálpað til við að minnka óvissu um gengis- og verðbólguþróun undanfarið. Stundum hefur verið haft á orði að afskipti bankans af gjaldeyrismarkaði væru ósamhverf á þá leið að hann væri fljótari til að selja gjaldeyri úr forða sínum þegar krónan veiktist en svifaseinni við gjaldeyriskaup þegar krónan væri í styrkingarfasa. Gjaldeyriskaupin á síðustu mánuðum nýliðins árs sýna þó að gjaldeyrisstefnunni sem kynnt var í fyrravor er framfylgt á báða bóga. Er það mikilvægt, því það myndi reynast skammgóður vermir að nota skuldsettan gjaldeyrisforðann til þess að halda aftur af gengisveikingu, án þess að gjaldeyris væri aflað í forðann að nýju þegar betur stendur á.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall