Fréttir Greiningar

Vaxandi verðbólga

23.07.2015 12:18

Verðbólga í júlí mældist 1,9% og er þar með enn undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans, líkt og hún hefur verið samfleytt í hálft annað ár. Horfur eru hins vegar á vaxandi verðbólgu eftir því sem líður á árið, og líklega fer hún yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans strax í haust.
 
Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar hækkaði vísitala neysluverðs (VNV) um 0,16% í júlí. Mælingin er aðeins umfram spá okkar en við spáðum 0,1% hækkun VNV milli mánaða en opinberar spár voru á bilinu 0,2% lækkun til 0,1% hækkun sem er nokkuð breiðara bil en oft áður hefur verið. Árstaktur verðbólgunnar hækkar talsvert í júlí, en verðbólga mælist nú 1,9% eins og áður segir en var 1,5% í júní sl. Miðað við VNV án húsnæðis mælist hins vegar 0,4% verðbólga undanfarna 12 mánuði en á þann kvarða hafði hún mælst 0,2% í júní. Líkt og jafnan í júlí vógu útsöluáhrif þungt til lækkunar, en mikil hækkun á flugfargjöldum til útlanda, ásamt hækkun á húsnæðislið lagðist einna helst á hækkunarhliðina að þessu sinni. 

Útsöluáhrif til lækkunar

Sumarútsölur eru nú í algleymingi og telst okkur til að þær hafi vegið til 0,53% lækkunar VNV í júlí. Stærstur hluti þessara áhrifa er vegna 11,1% lækkunar á fötum og skóm (-0,50% áhrif í VNV), en einnig lækkaði verð á húsgögnum og heimilisbúnaði nokkuð, eða um 0,7% (-0,03% í VNV).   

Mikil hækkun á flugfargjöldum

Óhætt er að segja að kostnaður við ferðir og flutninga hafi vegið talsvert þyngra í buddum landsmanna í júlí en í síðasta mánuði. Sá undirliður hækkaði um 2,4% í júlí (0,37% áhrif í VNV), sem má að langmestu leyti rekja til 33% hækkunar á flugfargjöldum til útlanda (0,45% í VNV). Þó hækkuðu flugfargjöld í heild nokkuð minna, eða um tæp 24% (0,38% í VNV), þar sem flugfargjöld innanlands lækkuðu um rúm 35% á sama tíma. Af öðrum undirliðum hér má nefna 0,4% hækkun á bílum (0,02% í VNV) en á hinn bóginn var rekstrarkostnaður ökutækja að lækka, sem fyrst og fremst skrifast á 1,2% lækkun á eldsneytisverði (-0,04% í VNV). 

Kostnaður við hús og híbýli hækkar

Húsnæðisliður VNV hækkaði um 0,7% í júlí (0,19% í VNV). Þar af hækkaði reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar að mestu markaðsverð íbúðarhúsnæðis, um 0,8% (0,12% í VNV) en greidd húsaleiga um 0,4% (0,02% í VNV). Jafnframt hafði rúmlega 0,9% hækkun gjaldskráa fyrir heitt vatn og rafmagn áhrif til 0,03% hækkunar VNV, auk þess sem viðhaldsliður húsnæðis hækkaði um 0,6% (0,02% í VNV). 

Nokkur hækkun varð á matarkörfunni nú í júlí, en alls hækkaði mat- og drykkjarvöruliðurinn um 0,4% í júlímælingunni frá síðasta mánuði (0,06% í VNV). Margir undirliðir hækkuðu, en áhrifin voru einna mest af 1,2% hækkun á brauði og kornvörum (0,03% í VNV). Af öðrum liðum sem höfðu talsverð hækkunaráhrif í júlí má nefna að verð á símaþjónustu hækkaði um 0,9% (0,03% í VNV)og verð á veitinga- og kaffihúsum um 0,6% (0,03% í VNV). 

Verðbólga yfir markmið í haust

Horfur eru á stíganda í árstakti verðbólgunnar á næstu mánuðum, og er útlit fyrir að verðbólgan fari yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans í september. Við höfum hækkað bráðabirgðaspá okkar fyrir ágústmánuð, og reiknum nú með 0,6% hækkun VNV í mánuðinum í stað 0,5% líkt og við höfðum áður gert ráð fyrir. Þessa breytingu á spá okkar má einna helst rekja til 11,2% hækkunar á viðhaldsþjónustu á húsnæði (+0,08% í VNV), sem kemur í kjölfar nýgerðra kjarasamninga iðnaðarmanna og verkafólks í byggingariðnaði. Annars munu útsölulok á fötum og skóm (+0,29%) vega talsvert þungt til hækkunar VNV í ágúst að vanda, en auk þess gerum við ráð fyrir talsverðri hækkun á matvörulið VNV (+0,13%) þar sem verðhækkun á mjólk og mjólkurafurðum (+0,09%) spilar stóra rullu.  Samkvæmt þessari spá, sem er til bráðabirgða, mun árstaktur verðbólgu aukast töluvert í ágúst, eða fara úr 1,9% nú í júlí í 2,2% í ágúst. 

Við gerum svo ráð fyrir 0,2% hækkun VNV bæði í september og október. Samkvæmt spá okkar verður 12 mánaða taktur VNV kominn upp í 2,6% strax í september, og er þar með kominn upp fyrir verðbólgumarkmið Seðlabankans. Teljum við að verðbólgan fari yfir 3% fyrir lok árs, og að á næsta ári verði hún að jafnaði talsvert yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall